
- Gunnar Eiríkur Hauksson
- Prófastur Vesturlandsprófastdæmis

Bjarnarhafnarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1856–1858. Hönnuður hennar var Sigurður Sigurðsson, forsmiður í Grundarfirði. Í upphafi var þakið gaflsneitt við austurstafn og strýtumyndaður þakturn við vesturstafn. Hann var tekinn ofan um aldamótin 1900. Gaflsneiðing var tekin af kirkjunni um 1950. Þakið er krossreist og klætt bárujárni en veggir eru klæddir slagþili og stendur kirkjan á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír gluggar. Í fremsta glugga hvorum megin er sex rúðu rammi, en þriggja rúðu rammi í innri gluggunum. Uppi á framstafni, yfir dyrum, er þriggja rúðu gluggi, heldur minni.
Fyrir kirkjudyrum er okahurð og yfir henni klassískur skrautumbúnaður um bænaspjald. Altaristaflan er olíumálverk á tré, eftir danska listmálarann C.W. Eckersberg og sýnir Krist í Emmaus. Hún kom í kirkjuna árið 1833. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru ekki samstæðir gripir. Kaleikurinn mun vera íslensk smíð frá seinni hluta 18. aldar. Prédikunarstóllinn er áttstrendur með máluðum myndum af guðspjallamönnunum fjórum. Hann var gefinn kirkjunni árið 1694. Klukkur Bjarnarhafnarkirkju eru frá 1741 og 1835.
