
- Ingimar Helgason
- Sóknarprestur

Grafarkirkja er friðlýst timburkirkja og var byggð árið 1898. Hönnuður hennar var Samúel Jónsson forsmiður. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hljómop með hlera er á framstafni turns. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er T-laga póstur og tveir þriggja rúðu rammar undir þverpósti en þverrammi efst með bogadregnum rimum að innan.
Minni gluggi er hvor sínum megin kirkjudyra með þriggja rúðu ramma neðan þverpósts og einum ramma að ofan. Gluggi með þremur þriggja rúðu römmum er uppi á stafninum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Forkirkja er skilin frá framkirkju með þverþili. Reitaskipt hvelfing skreytt stjörnum er yfir kór og innri hluta framkirkju en yfir sönglofti er panelklætt súðar- og skammbitaloft. Turni, sem upphaflega var áttstrendur, var breytt í núverandi mynd árið 1931.
Altaristaflan er eftirmynd Brynjólfs Þórðarsonar listmálara frá árinu 1938 eftir töflu Carls Bloch 1834-1890 sem sýnir huggarann Krist, Christus Consolator. Altarisstjaka á kirkjan úr látúni frá 18. öld eða lokum 17. aldar. Aðrir altarisstjakar eru úr kopar, gefnir kirkjunni árið 1947. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri frá miðri 19. öld. Skírnarfonturinn var gerður af Ríkarði Jónssyni árið 1954. Klukkur Grafarkirkju eru úr Áskirkju steypt, árið 1727, hin er úr Búlandskirkju, steypt árið 1744.
