Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Grund, Eyjafjarðarbraut vestri, 605 Akureyri
Bílastæði
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 200
Sókn
Grundarsókn

Grundarkirkja

Grundarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1904–1905. Frumuppdrætti að kirkjunni gerði Sigtryggur Jónsson forsmiður frá Espihóli í Eyjafirði og Ásmundur Bjarnason forsmiður frá Eskifirði í samráði við Magnús Sigurðsson bónda og smið á Grund. Kirkjuna málaði norski málarinn Frederik Maximilian Müller. Kirkjan snýr framstafni til suðurs. Risþak er á kirkjunni klætt bárujárni og dropaskraut er undir þakskeggi og þakbrúnum.

Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir með sex gluggum hvor. Gluggar í neðri röðinni eru mun stærri en þeir efri. Tveir stórir gluggar eru á kórbaki, einn á hvorri hlið stöpuls, lítill gluggi ofan þeirra og aðrir tveir á framhlið stöpuls. Gluggarnir eru bogadregnir að ofan og í þeim misstórar rúður milli lóðréttra, láréttra og skásettra rima. Um þá eru skoraðir faldar, krappi fyrir miðju og hnúður yfir.

Um kirkjuna, undir gluggum, eru tvö bönd skreytt tannstöfum, en þrjú bönd á stöpli, og skoruð borð á hornum. Stöpull ber við mæni kirkju. Á honum er flatt þak sem gengur út yfir veggi, skreytt dropum undir þakbrún, en handrið umhverfis rofið á hornum af litlum áttstrendum turnum með íbjúgu þaki. Turninn er áttstrendur og á honum er tvískipt þak. Hann er klæddur skásettum panelborðum, en bogagluggi er ofarlega á hverri hlið. Áttstrent bryggjumyndað þak er á turninum og yfir því lauklaga spíra á átta stoðum.

Framhlið stöpuls er inndregin við kirkjudyr og undir henni fjórar súlur og milli þeirra þrír bogar en band undir lágboga yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Gengt dyrum er sáluhlið með fjórum stoðum skreytt bogum og pílárum. Altaristaflan er olíumálverk á striga eftir danska málarann Anker Lund. Hún var gerð árið 1891 og sýnir upprisu Krists. Kirkjan á kaleik og patínu úr nýsilfri, sem eru enskir gripir frá því um aldamótin 1900.

Skírnarfontinn smíðaði Kristján S. Sigurðsson árið 1951. Handsmíðuð skírnarskál kom í kirkjuna árið 1976. Hún er úr látúni og var smíðuð af Björgvin Svavarssyni kennara og silfursmið í Kópavogi. Tvær stórar kirkjuklukkur hanga á ramböldum í turni Grundarkirkju, báðar frá árinu 1904.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Aðalsteinn Þorvaldsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Hildur Eir Bolladóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Jóhanna Gísladóttir
  • Prestur