
- Halla Rut Stefánsdóttir
- Sóknarprestur

Ábæjarkirkja í Austurdal er steinsteypt hús með risþaki, veggir eru hvítir en þakið rautt. Þakið var upphaflega af torfi en árið 1970 var sett járnþak á kirkjuna. Smíði kirkjunnar hófst árið 1921 og voru þá þrír bæir í byggð í sókninni. Kirkjusmiður var Ólafur Kristjánsson frá Ábæ. Ábæjarkirkja er fyrsta steinsteypta kirkjan í Skagafirði. Hún var vígð þann 6. ágúst árið 1922. Við inngöngudyr eru klukkur kirkjunnar. Frá dyrum blasir við útsýn í kirkjugarð og upp í hlíð um glugga ofan altaris. Telst glugginn sérkenni kirkjunnar en hann er eins konar altaristafla. Glugginn er með póstum og níu rúðum. Miklar endurbætur fóru fram árið 1997 og um þær sáu Valur Ingólfsson og Reynir Pálsson í Varmahlíð.
Altaristaflan er á norðurvegg kirkjunnar. Prédikunarstóllinn er sexstrendur á fæti, með spjöldum. Þau eru máluð dökkbrún en brúnir gylltar. Skírnarfonturinn er úr birkitré, útskorinn af Sigurbirni Þ. Sigurðssyni í Keflavík. Fótur fontsins er mikil rótarhnyðja, sem tekin var úr Jökulsárgili. Skírnarskálin er úr kristal. Kirkjan á kaleik úr tini, sem fyrst er getið við úttekt frá árinu 1732. Patínan er augljóslega yngri og ekki samstæð við kaleikinn. Ekki er vitað um uppruna þessara gripa. Klukkur kirkjunnar eru við inngöngudyr, báðar mjög gamlar.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.


