
- Kristín Þórunn Tómasdóttir
- Sóknarprestur

Miðdalskirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1869. Hönnuður hennar var Guðmundur Þórðarson, snikkari. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er turn með risþaki. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli, veggir eru klæddir listaþili en þök klædd bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar með miðpósti og þrískiptum ramma hvorum megin. Að neðan eru tvær rúður, en efst eru skásettar um fjórar þríhyrndar rúður. Yfir þeim er bjór sem rís upp í odd efst fyrir miðju, en er hvilftur hvorum megin að hringlaga hnúðum til enda. Á framstafni yfir kirkjudyrum er einn gluggi, heldur minni en hinir.
Fyrir kirkjudyrum er hlífðarhurð á okum en innri hurðin spjaldsett. Um þær eru skoraðir faldar og stórstrikuð brík yfir. Altaristaflan er dönsk, steinprentuð mynd af Kristi og lærisveinunum, sem mun gerð eftir mynd Carls Bloch. Í kirkjunni er einnig gömul altaristafla, sem er kvöldmáltíðarmynd, frá því fyrir árið 1770. Kirkjan á danskan kaleik og patínu frá árinu 1633. Prédikunarstólinn málaði Ófeigur Jónsson, listamaður í Heiðarbæ, árið 1840. Önnur kirkjuklukkan virðist fornleg og kollulaga og virðist vera frá miðöldum, hin er leturlaus með venjulegu lagi.
Ljósmynd tók Jóna Þórunn Ragnarsdóttir.

