Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Kirkjustíg, 580 Siglufirði
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 400
Sókn
Siglufjarðarsókn

Siglufjarðarkirkja

Í meira en 600 ár var Siglunes miðstöð Siglufjarðarbyggða og stóð þar m.a. aðalkirkja og þingstaður íbúa Sigluneshrepps hins forna. Elstu heimildir um kirkju þar eru frá 1422. Í upphafi 20. aldar, á upphafsárum síldarævintýrisins margumtalaða, fjölgaði íbúum Siglufjarðar ört og upphófst þá leit að nýju kirkjustæði.

Lyktir málsins urðu þær að ákveðið var að reisa hið nýja guðshús á Jónstúni, beint upp af Aðalgötunni. Arkitekt var ráðinn Arne Finsen, danskur að ætt en þá starfandi í Reykjavík, og er upphafleg teikning að kirkjunni dagsett 29. júní 1929. Hinn 30. mars 1930 lagði sóknarnefnd blessun þar yfir og á fundi 28. september það ár var framkvæmdin boðin út.

Kirkjan er um 35 metra löng, 12 metra breið og steypt. Kirkjuskipið er tvílyft og um 30 metra hár klukkuturn steyptur með forkirkju, sem lögð er steinflísum. Klukkurnar voru gjöf frá Sparisjóði Siglufjarðar Byggingarár kirkjunnar er steypt ofan við dyr hennar. Klukkuskífa er á turninum. Tveir gluggar eru á hvorri hlið hans, en efst er kross úr smíðajárni. Kirkjan snýr í vestur og austur og snýr altarið í vestur. Veggir að utan eru múraðir, en þak lagt bárujárni. Gluggar í kirkjuskipi eru með gotnesku lagi og póstum, fjórir á hvorri langhlið, en einn á hvorri hlið í kór.

Skipslíkan hangandi úr lofti sunnanmegin er gjöf arkitektsins og fjölskyldu hans og afhent á vígsludegi. Er þar á ferðinni ævagamall norður-evrópskur siður; fleyið táknar alheimskirkjuna, sem er hið trausta far okkar á siglingu um mislyndan veraldarsjóinn, til ákvörðunarstaðarins á himnum.

Mesta prýði kirkjunnar, altaristaflan, er máluð af Gunnlaugi Blöndal og var afhjúpuð 5. september 1937. „Sérstaka athygli vekur Kristsmyndin og andlit sjómanna í bátnum, en þau sýna andlit íslenskra sjómanna, enda eftir íslenskum fyrirmyndum,“ sagði Morgunblaðið þegar sagt var frá afhjúpun altaristöflunnar. „Yfir málverkinu öllu er táknrænn íslenskur svipur og er það talið eitt hið merkasta listaverk málarans.“ Altaristaflan er 3 metrar á hæð og 2,3 metrar á breidd. Á henni er Kristur og sjö sjómenn. „Telja sumir Siglfirðingar að þar megi þekkja gamlan, siglfirskan sjómann meðal postulanna," sagði í bókinni Siglufjarðarprestar.

Steindir gluggar eru eftir listakonuna Marie Katzgrau, settir í kirkjuskipið 1974. Fjórir veglegir stólar í kór eru útskornir af Hirti Ármannssyni, tveir þeirra gefnir 1975 og hinir nokkru síðar.

Prédikunarstóllinn stendur á brúnmáluðum fæti og er útskorinn og skreyttur með hatt yfir. Sverrir Tynes byggingameistari skar hann út. Ríkharður Jónson skar út skírnarfontinn. Hann er sívalningur úr tekki með gylltum skreytingum og áletrun: „Leyfið börnunum að koma til mín.“ Skírnarfatið er úr messing og merkt með ártalinu 1932. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurpletti. Þá á kirkjan annan kaleik og patínu, sem gefin voru af fermingarbarnaárgangi 1942. Í kirkjunni er einnig kaleikur og oblátuskál úr leir, sem gerð voru fyrir Kristnihátíðina á Þingvöllum árið 2000. Tíu steindir gluggar komu í kirkjuna árið 1974. Þeir eru eftir þýska listakonu, Maríu Katzgrau.

Glæsilegt safnaðarheimili var tekið í notkun á kirkjuloftinu 1982 en Gagnfræðaskóli Siglufjarðar hafði tekið þar til starfa 13. október 1934 og haft aðsetur í 23 ár. Þar inn af var til ársins 2005 gamalt, fótstigið orgel í eigu kirkjunnar en á það mun sr. Bjarni Þorsteinsson hafa samið hátíðarsöngvana. Það var síðan lánað niður í Þjóðlagasetur og er eitt af helstu dýrgripum þess.

Núverandi orgel er 24 radda hljóðfæri, smíðað í Aquincum-verksmiðjunum í Búdapest í Ungverjalandi og sett upp og vígt 25. ágúst 1996.

Alls hafa níu sóknarprestar þjónað við núverandi kirkju. Þeir eru eftirtaldir: sr. Bjarni Þorsteinsson (1888–1935), sr. Óskar J. Þorláksson (1935–1951), sr. Kristján Róbertsson (þjónaði tvisvar, 1951–1954 og 1968–1971), sr. Ragnar Fjalar Lárusson (1955–1967), sr. Rögnvaldur Finnbogason (1971–1973), sr. Birgir Ásgeirsson (1973–1976), sr. Vigfús Þór Árnason (1976–1989), sr. Bragi J. Ingibergsson (1989–2001) og sr. Sigurður Ægisson (2001–).

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Sigurður Ægisson
  • Sóknarprestur