Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Böggvisbraut, 620 Dalvík
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 200
Sókn
Dalvíkursókn

Dalvíkurkirkja

Dalvíkurkirkja var vígð þann 11. september árið 1960. Halldór Halldórsson arkitekt teiknaði kirkjuna. Hún er krosskirkja, byggð úr steinsteypu, með turn upp úr þaki, en kór nokkru lægri aðalkirkjunni. Á þaki er borðaklæðning með pappa og ál þakplötum og einangrað með trétexi og gosull.

Að innan er panelklæðning –strikuð- og undir sperrur með skammbitum. Klæðningin er fölblá og sperrur í gulum lit. Gluggar eru stórir, oddbogadregnir, fjórir á hvorri hlið, auk þess þrír á hvorri krossálmu ívið mjórri, en hærri, og sá í miðið hæstur. Framan á turnstafni eru þrír mjórri gluggar yfir kirkjudyrum og aðrir þrír hærra, en ljósakrossmark á milli og er umgjörð þess úr koparblöndu. Turninn er tvískiptur og situr efri turninn á stöplum og er opinn.

Smærri gluggar eru á kórbyggingu. Litað gler er í gluggum kórs og aðalkirkju og á sönglofti. Steinsteyptar tröppur með breiðum palli liggja upp að kirkjunni. Dyrmyndað útskot með oddboga skyggni er fyrir framna kirkjudyr. Útidyrahurðir eru úr völdum viði og tíu smárúður yfir. Útveggir eru málaðir hvítir, en bláir rammar um glugga og þakbrúnir. Árið 1988 var hafist handa við að byggja safnaðarheimili áfast við kirkjuna. Haukur Haraldsson teiknaði bygginguna en samráð var haft við húsameistara ríkisins.

Altaristaflan er gipsafsteypa af lágmynd Bertels Thorvaldsen “Kristur í Emmaus”. Hún var gefin við vígslu kirkjunnar árið 1960. Kirkjan á silfurkaleik og patínu með stimpli S O S. Þessir gripir munu vera fornir. Þá á kirkjan danskan silfurkaleik og patíua frá árinu 1955.

Auk þess á kirkjan silfurkaleik, sem var gefinn kirkjunni árið 1965. Loks var kirkjunni gefinn kaleikur og patína árið 1994. Skírnarfonturinn var gjöf frá konunum í Dalvíkurhreppi við vígslu kirkjunnar árið 1960. Hann er úr brenndu birki, smíðaður á Akureyri. Á honum er útskurður eftir bræðurna Hannes og Kristján Vigfússyni frá Litla-Árskógi á Árskógsströnd. Pípuorgel er í Dalvíkurkirkju sem var keypt nýtt árið 1990. Þetta er 13 radda pípuorgel gert í Danmörku af P. Bruhn og sφn.

Auk þess er píanó í kirkjunni. Í klukkuturninum eru tvær stórar klukkur og fylgir þeim rafmagnsútbúnaður. Þeim er hringt úr skrúðhúsi.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Erla Björk Jónsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Oddur Bjarni Þorkelsson
  • Sóknarprestur