Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Reynivöllum, 276 Mosfellsbæ
Bílastæði
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 100
Sókn
Reynivallasókn

Reynivallakirkja

Reynivallakirkja í Kjós er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1859. Hönnuður hennar var Einar Jónsson forsmiður frá Brúarhrauni. Kirkjan var járnklædd árið 1894 og forkirkja var smíðuð árið 1951. Kirkjan var lengd árið 1959 og innri gerð breytt. Hönnuðir breytinga eru ókunnir. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþak, en lágreist risþak er á forkirkju. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn á framstafni yfir forkirkju, en bogadregið hljómop með hlera á framhlið turns. Yfir gluggum er lágur bjór. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Altaristaflan er eftirmynd Brynjólfs Þórðarsonar listmálaara frá árinu 1931 eftir töflu Carls Bloch í kirkjunni í Holbæk á Sjálandi og sýnir Jesú blessa lítið barn. Í kirkjunni er einnig gömul krossfestingarmynd, máluð á eikarfjalir. Við krossinn standa María guðsmóðir og Jóhannes postuli. Kirkjan á silfurkaleik, sem smíðaður var árið 1879 af Birni Árnasyni gullsmið á Ísafirði og silfurpatínu frá árinu 1726. Skírnarfonturinn er úr mahóní, smíðaður árið 1952, en skírnarfatið er úr tini, smíðað í Kaupmannahöfn árið 1704. Klukkur Reynivallakirkju eru frá árinu 1728 og árinu 1795.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Arna Grétarsdóttir
  • Sóknarprestur