Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Hofi, 766 Djúpavogi
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 50

Hofskirkja í Álftafirði

Hofskirkja í Álftafirði er friðlýst kirkja, byggð árið 1896. Hönnuður hennar var Lúðvík Jónsson forsmiður á Djúpavogi. Hofskirkja er timburhús með turn við vesturstafn. Þak kirkju er krossreist en hátt pýramídaþak á turni sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er bárujárnsklædd, turnþak klætt sléttu járni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir stórir gluggar með lóðréttum og skásettum póstum en einn póstagluggi á framhlið turns yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Í kórdyrum eru kórstafir, ferstrendir að neðan en áttstrendir að ofan, og bogi yfir. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin og bekkir með veggjum í kór.

Í öndverðu voru kirkjuveggir klæddir plægðum borðum en turn og kirkjuþak klædd bárujárni og á hvorri hlið voru þrír gluggar. Árið 1907 voru stafnarnir klæddir bárujárni og þakturn rifinn, árið 1929 var svo reistur forkirkjuturn.Veggir voru múrhúðaðir árið 1954 og turn hækkaður og turnþaki breytt sama ár. Ári síðar skrautmáluðu Jón og Gréta Björnsson kirkjuna að innan. Árið 1969 var múrhúðun brotin af, veggir klæddir bárujárni og nýir,breyttir gluggar settir í kirkjuna og veggir klæddir plötum að innan. Altaristaflan er olíumálverk frá 1864, eftir Carl Rudolf Fiebig og sýnir krossfestinguna. Kirkjan á silfurhúðaðan kaleik og patínu úr silfri. Þessir gripir eru frá því um 1800. Auk þess á kirkjan þjónustukaleik og patínu úr silfri sem einnig eru frá því um 1800. Skírnarfonturinn er gerður af Ríkarði Jónssyni árið 1969. Tvær kirkjuklukkur eru í Hofskirkju, önnur frá 1743 og hin líklega einnig frá 18. öld.

Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Ingibjörg Jóhannsdóttir
  • Djákni Austurlandsprófastsdæmi
Mynd sem tengist textanum
  • Arnaldur Arnold Bárðarson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Benjamín Hrafn Böðvarsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
  • Sóknarprestur