
- María Guðrúnar. Ágústsdóttir
- Sóknarprestur

Hvanneyrarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1905. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Á kirkjunni er krossreist bárujárnsklætt þak. Stöpull er ferstrendur og klæddur stoðum og slám efst og á honum er lágt píramítaþak. Á því stendur ferstrendur burstsettur turn með hornstöfum og háu píramítaþaki. Turnhliðar eru upp af hornum stöpuls en hornstafir upp af miðju stöpulveggja. Veggir eru klæddir báruðum stálplötum og kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír oddbogagluggar. Í þeim er T-laga póstur, lóðréttur og láréttir rimar um átta rúður hvorum megin miðpósts og yfir þverpósti tvær oddbogarúður, en hringrúða efst. Ofarlega á framhlið stöpuls eru tveir mjóir blindgluggar, timburklæddir að neðan en undir oddboga er laufmyndaður gluggi.
Svipaður frágangur er á fjórum hljómopum turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og smárúðóttur oddbogagluggi yfir. Altaristaflan er olíumálverk eftir Brynjólf Þórðarson listmálara frá árinu 1924 og sýnir frelsarann í íslensku landslagi með tveimur konum. Kirkjan á silfurkaleik og patínu smíðuð af Bjarna Bjarnasyni bónda og smið á Kirkjusandi í Landeyjum. Þessir gripir komu í kirkjuna árið 1913 úr Voðmúlastaðakirkju.
Skírnarfonturinn var smíðaður árið 1975 af Þórði Vilmundarsyni hagleiksmanni í Skorradal. Tvær klukkur eru í Hvanneyrarkirkju og er sú stærri er frá árinu 1846, hin er frá árinu 1837.
