
- María Guðrúnar. Ágústsdóttir
- Sóknarprestur

Reykholtskirkja gamla er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1886–1887. Hönnuður hennar var Ingólfur Guðmundsson forsmiður. Í öndverðu voru veggir klæddir láréttri plægðri borðaklæðningu, þök bárujárnklædd og turn sinkklæddur. Á kirkjunni voru gluggar með T-laga póstum og þverfagi efst með bogarimum. Árið 1897 voru veggir klæddir bárujárni. Árið 1950 var steyptur sökkull undir kirkjuna og settir í hana bogadregnir gluggar. Á árunum 2001-2006 var kirkjan færð til upprunalegs horfs að utan og innan. Kirkjan hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 2001.
Þök eru krossreist og undir þakbrúnum eru laufskornar vindskeiðar. Upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hann stendur á bjúgstalli. Á framstafni turns er hljómop með vængjahlerum og bogaglugga yfir en á hliðum eru bogadregnir faldar um fölsk hljómop. Turnveggir og bjúgstallur eru klæddir sléttu járni. Kirkjan er klædd láréttri plægðri borðaklæðningu og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru fjórir gluggar og einn hvorum megin á kór. Í þeim er T-laga póstur, þriggja rúðu rammar eru neðan þverpósts og þverrammi að ofan með bogarimum og yfir þeim strikaðar bríkur. Á framstafni er póstgluggi með þriggja rúðu römmum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir, þvergluggi með bogarimum að ofan og bjór yfir. Efst er lítill þríhyrndur gluggi.
Altaristaflan er olíumálverk, sem er eftirmynd Anker Lund af frummynd Carl H. Bloch og sýnir frelsarann breiða út faðminn móti þeim sem þunga og erfiði eru hlaðin. Taflan var keypt til kirkjunnar laust upp úr aldamótunum 1900. Skírnarfonturinn var smíðaður um 1958 af Bjarna Kjartanssyni myndskera í Reykjavík. Kirkjan á silfurkaleik og patínu sem smíðuð voru af Birni Magnússyni gullsmið á Gvendareyjum og víðar við Breiðafjörð. Auk þess á kirkjan silfurþjónustukaleik og patínu, sem smíðuð voru árið 1833 af Sveini Þorvaldssyni gullsmið í Hvammi í Dýrafirði. Klukkur sem áður voru í gömlu kirkjunni hanga nú í klukkuturni hinnar nýju.
