- Fjölnir Ásbjörnsson
- Prestur

Vatnsfjarðarkirkja
Vatnsfjarðarkirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem byggð var á árunum 1911–1912. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsameistari ríkisins. Þak kirkjunnar er krossreist og klætt bárujárni. Upp af framstafni er ferstrendur burstsettur turn með ferstrendri spíru. Undir honum er lágur stallur. Bogadregin hljómop með hlera og bogaglugga yfir eru á turnhliðum. Veggir eru múrhúðaðir og efst á stöfnum undir þakbrúnum er upphleypt múrhúðuð vindskeið, bogadregin neðst og þverskorin að neðan.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir gluggar og á framstafni yfir dyrum er smárúðóttur gluggi en hvorum megin hans minni blindgluggar. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð með þremur lóðréttum rúðum, bogadregnum að ofan. Yfir dyrum er lágbogi. Altaristaflan er olíumálverk á tré eftir danska listmálarann J.F. Möller og sýnir Krist upprisinn. Taflan var gefin kirkjunni árið 1860.
Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Hnúður og leggur kaleiksins eru vafalítið af miðaldakaleik, en skálin og stéttin munu vera smíðuð á 18. öld. og patínan að öllum líkindum sömuleiðis. Skírnarfonturinn er úr laufviði, smíðaður og skorinn út árið 1961 af Wilhelm Ernst Beckmann myndskera. Klukkur Vatnsfjarðarkirkju er báðar steyptar í Kaupmannahöfn árið 1798.

- Hildur Inga Rúnarsdóttir
- Prestur

- Magnús Erlingsson
- Prófastur Vestfjarðaprófastdæmis