
- Jarþrúður Árnadóttir
- Prestur

Eiðakirkja er timburhús með klukknaport á vesturstafni. Hún var byggð árið 1886 og var hönnuður Gísli Sigmundsson, forsmiður frá Ljótsstöðum á Höfðaströnd. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990. Risþök eru á kirkju og klukknaporti, klædd bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er krosspóstur og sex rúður í römmum.Tvær súlur eru undir framhlið klukknaports og tvær flatsúlur við framstafn kirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar innri spjaldsettri hurð. Inn af kirkjudyrum er gangur inn að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Yfir kirkjunni stafna á milli er panelklædd hvelfing.
Kirkjan var verulega gerð upp árið 1986 og m.a. smíðaðir nýir bekkir og hún flóðlýst að utan. Fyrir 130 ára afmæli hennar, árið 2016 voru smíðaðir nýir gluggar í kirkjuna, garður var girtur og hún máluð ljósgrá eins og hún upprunalega var.
Kirkjan á ýmsa muni og eru margir þeirra minningargjafir. Kristslíkneskið, róðan stóra, sem nú er yfir dyrum inni, mun frá kaþólskri tíð. Altaristaflan, upprisumynd, er eftirmynd eftir Carl Bloch (1834-1890). Númerataflan frá 1807 er úr gömlu kirkjunni. Silfurhúðaður kaleikur og patína eru mjög gömul. Veglegan skírnarfont, verk Halldórs Sigurðssonar á Miðhúsum og Hlyns sonar hans, gáfu prestshjónin sr. Einar Þór Þorsteinsson og Sigríður Zophoníasdóttir, árið 1976.
Lítið safnaðarheimili vestan kirkjunnar, var blessað á 120 ára afmæli hennar árið 2006. Það smíðaði Stefán Jóhannsson á Þrándarstöðum eftir teikningu Björns Kristleifssonar arkitekts. Söfnuðurinn tók við forsjá kirkjunnar árið 2005.


