- Fjölnir Ásbjörnsson
- Prestur

Hrafnseyrarkirkja
Hrafnseyrarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1885–1886. Hönnuður hennar var Árni Sveinsson forsmiður.
Lágt risþak er á kirkjunni. Upp af vesturstafni er áttstrendur burstsettur turn með áttstrendra spíru. Hálfsúlur eru á turnhornum og bogadreginn hleri fyrir hljómopi á framhlið turns og undir honum lágur breiður stallur. Kirkjan er klædd bárujárni en turn sléttu járni. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með mjóum rimum um sex rúður. Efst á framstafni og upp á turnstall er gluggi sömu gerðar en minni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og yfir þeim strikuð brík.
Yfir altarinu er Kristsstytta með áletruninni: Komið til mín. Málverk eftir Kára Eiríksson listmálara frá árinu 1957 hangi á norðurvegg kirkjunnar. Það sýnir Jesú blessa börnin. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir frá miðri 17. öld. Skírnarfonturinn var útskorinn af Ríkarði Jónssyni myndskera. Klukkur Hrafnseyrarkirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1815, hin er leturlaus.

- Hildur Inga Rúnarsdóttir
- Prestur

- Magnús Erlingsson
- Prófastur Vestfjarðaprófastdæmis