
- Kristján Arason
- Sóknarprestur

Breiðabólstaðarkirkja er friðlýst timburhús frá árinu 1911. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Kirkjan er krosslaga að grunnformi og eru þök krossreist. Milli krossálma í suðvestur horni er ferstrendur burstsettur turn með háa turnspíru. Kórálma að austanverðu er lengri en hinar álmurnar. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á norður, suður og vesturstöfnum kirkjunnar eru þrír háir samlægir burstlaga gluggar með smáum rúðum og er miðglugginn sýnu stærstur. Gluggi er á hvorri hlið kórs, tveir minni á kórbaki og einn sömu stærðar á suðurhlið turns. Kirkjudyr eru á vesturhlið turns og gluggi yfir þeim.
Altaristaflan er eftirmynd Sigurðar Guðmundssonar málara frá árinu 1864 af töflu G.T. Wegeners í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hún sýnir upprisuna. Prédikunarstóllinn er úr kirkjunni, sem smíðuð var árið 1839. Skírnarfonturinn var gerður á fyrri hluta síðustu aldar í líkingu eldri fonts frá árinu 1839. Kirkjan á fornan silfurkaleik skreyttan víravirki á stétt og legg og patínu úr silfri, sem kann að vera frá 14. öld. Það er aldagömul trú sem haldist hefur fram á okkar daga, að kaleikur þessi hafi lækningamátt. Þau sem af honum bergi sjúkir, hljóti bata. Fjórar kirkjuklukkur eru í Breiðabólsstaðarkirkju, ein frá 1748, önnur án áletrunar. Sú þriðja mun vera frá 18. öld og sú fjórða með fornu lagi.
