Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Ingjaldshólskirkjuvegi, 360 Hellissandi
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 100
Sókn
Ingjaldshólssókn

Ingjaldshólskirkja

Ingjaldshólskirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem byggð var árið 1903. Hönnuður hennar var Jón Sveinsson, forsmiður. Turn kirkjunnar var hækkaður og þaki hans breytt árið 1914. Hönnuður breytinganna var Rögnvaldur Ólafsson, arkitekt. Byggt var við turninn á árunum 1994–1996 og gerð tenging við safnaðarheimili neðanjarðar. Hönnuður þess var Magnús Ólafsson arkitekt. Þök kirkjunnar eru krossreist og klædd bárujárni en á turni er burstsett píramítaþak klætt sléttu járni. Veggir eru múrhúðaðir og sökkulbrún á þeim neðarlega. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar og einn, heldur minni á hvorri hlið kórs. Á framhlið turns yfir kirkjudyrum eru tveir litlir gluggar, einn á hvorri turnhlið, og loks einn, sömu stærðar, hvorum megin á hliðarveggjum forkirkju.

Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir. Altaristaflan er eftirmynd Þórarins B. Þorlákssonar listmálara, frá árinu 1903, af töflu G.T. Wegerens í Dómkirkjunni í Reykjavík og sýnir upprisu Krists. Gömul altaristafla með myndum af guðspjallamönnunum hangir á norðurvegg kirkjunnar. Hún var gefin kirkjunni árið 1709. Þá hangir önnur gömul altaristafla, með myndum af englum og geislandi sól, á vegg norðan kórdyra. Hún er dönsk og er frá 18. öld. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir gripir frá 19. öld. Skírnarfonturinn er renndur úr tré og málaður og með fati úr látúni. Hann kom nýr í kirkjuna skömmu fyrir aldamótin 1900. Kirkjuklukkur Ingjaldshólskirkju eru frá árunum 1743 og 1735.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Ægir Örn Sveinsson
  • Sóknarprestur