- Jóhanna Magnúsdóttir
- Sóknarprestur

Stóra-Dalskirkja
Kirkja var byggð í Stóra-Dal árið 1895, járnvarin timburkirkja og stóð hún allt til ársins 1969 þegar núverandi kirkja var vígð. Nýja kirkjan var byggð á árunum 1964-1968, gerð eftir teikningu Ragnars Emilssonar arkitekts og var vígð 18. maí árið 1969. Yfirsmiður kirkjunnar var Þorsteinn Jónsson frá Drangshlíðardal. Kirkjan er steinsteypt, þak er úr timbri. Steindar rúður í blýumgjörð eru í öllum gluggum. Yfir altari er kross úr málmi, gefinn af starfsmönnum Oidtmann verksmiðjunnar í Þýskalandi, sem settu upp gluggana í kirkjunni. Altaristaflan er gömul úr Voðmúlastaðakirkju. Hún var keypt af Voðmúlastaðakirkju þegar hún var aflögð og rifin árið 1912. Taflan sýnir upprisu Jesú og er eftirmynd altaristöflu Dómkirkjunnar í Reykjavík og er máluð af Sigurði Guðmundssyni. Kirkjan á kaleik og platínu úr silfri. Skírnarfonturinn er úr harðviði og keramikskál. Prédikunarstóllinn er einnig úr harðviði. Hammerson orgel er í kirkjunni. Sextán metra hár steinsteyptur stöpull með krossi efst, er norðvestan kirkjunnar. Þrjár klukkur eru í stöplinum, ein þeirra ný við vígsluna árið 1969. Turninn er jafnframt sáluhlið að kirkjugarði.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson