Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Gilsbakkavegi, 320 Reykholti í Borgarfirði
Bílastæði
Streymi
Kirkjugarður
Fjöldi: 50

Gilsbakkakirkja

Gilsbakkakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1908. Hún var smíðuð upp úr eldri kirkju sem fauk þann 15. desember árið 1907. Hönnuður hennar var Ingólfur Guðmundsson forsmiður, bóndi og hreppstjóri á Breiðabólstað í Reykholtsdal. Í upphafi stóð kirkjan á hlöðnum sökkli, var turnlaus, alklædd bárujárni og á hvorum hliðarvegg voru tveir sexrúðu póstagluggar. Steypt var utan á veggi, þrír oddbogagluggar settir í hvorn hliðarvegg og steinsteyptur turn reistur 1953–1954. Hönnuður breytinganna var Björn Kristjánsson smiður. Á stöpli er timburturn, veggir sveigjast út að neðan og á honum er íbjúgt píramítaþak. Turninn er klæddur sléttu járni. Kirkjuþak er krossreist og klætt bárujárni en veggir sléttaðir. Á hvorri hlið kirkju eru þrír oddbogagluggar með níu rúðum og einn minni gluggi á þremur hliðum turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og þvergluggi yfir.

Altaristaflan er olíumálverk eftir Ásgeir Bjarnþórsson listmálara frá árinu 1956 og sýnir brúðkaupið í Kana. Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Kaleikurinn var smíðaður snemma á 19. öld upp úr tveimur kaleikum í kirkjunni í Kalmannstungu. Patínan mun vera jafngömul. Skírnarfonturinn var smíðaður árið 1994 eftir teikningu Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu. Þá á kirkjan skírnarfat úr tini, sem líkleg er danskt frá fyrri hluta 18. aldar. Tvær kirkjuklukkur eru í Gilsbakkakirkju. Sú minni er frá árinu 1742. Aldur þeirrar stærri er óviss.

Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • María Guðrúnar. Ágústsdóttir
  • Sóknarprestur