
- Elísa Mjöll Sigurðardóttir
- Sóknarprestur

Kollafjarðarneskirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem byggð var á árunum 1907 - 1909. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsameistari ríkisins. Turn kirkjunnar var rifinn árið 1959 og nýr í sömu mynd reistur sama ár. Á turni er há og mjó ferstrend spíra sem gengur út undan sér að neðan og er klædd sléttu járni. Þak kirkju er krossreist og klætt bárustáli.
Veggir eru múrhúðaðir og raðbogar eru efst undir þakskeggi og þakbrúnum kirkju og turns. Á hvorri hlið kirkju eru þrír smárúðóttir bogadregnir gluggar úr steypujárni. Minni gluggi er á framstafni kirkju hvorum megin turns, tveir á turnhliðum og þrír á framhlið turns. Fyrir dyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og innfelldur bogi yfir þeim.
Altaristaflan er eftir danska málarann A. Dorph. Hún var tillögð Tröllatungukirkju á árunum 1884-85 og sýnir Krist og lærisveinana í Getsemanegarðinum. Þá er í kirkjunni önnur altaristafla frá 18. öld, sem áður var í Fellskirkju. Í miðju er kvöldmáltíðarmynd, fæðing Jesú til vinstri og upprisan til hægri. Kirkjan á silfurkaleik og patínu í endurreisnarstíl smíðað í Kaupmannahöfn árið 1721. Gripirnir voru áður í Fellskirkju. Þá á kirkjan silfurskírnarskál, sem smíðuð var af Leifi Kaldal gullsmið. Skálin stendur í sívölum fæti, renndum úr samlímdum viði, gefinn kirkjunni árið 1959. Kirkjuklukkur Kollafjarðarneskirkju eru frá árunum 1734 og 1849.
