
- Óskar Hafsteinn Óskarsson
- Prófastur Suðurprófastdæmis
Tungufellskirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1856. Hönnuður hennar var Sigfús Guðmundsson, forsmiður frá Skúmsstöðum á Eyrarbakka. Kirkjan hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1987. Þak kirkjunnar er krossreist og klætt bárujárni, en veggirnir eru klæddir listaþili. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum, en gluggi með fjögurra rúðu ramma er á framstafni.
Fyrir kirkjudyrum er okahurð. Altaristöfluna málaði Brynjólfur Þórðarson árið 1915 og sýnir hún Jesú blessa lítið barn. Fyrirmyndin er eftir Carl Bloch í Holbækkirkju á Sjálandi. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem Brynjólfur biskup Sveinsson lagði til Tungufellskirkju árið 1617. Klukkurnar á kirkjuloftinu eru meðal elstu kirkjuklukkna á Norðurlöndum, steyptar fyrir árið 1200.
