- Sólveig Halla Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur

Einarsstaðakirkja
Einarsstaðakirkja í Reykjadal er friðlýst timburkirkja frá árinu 1862. Hönnuður hennar var Árni Hallgrímsson forsmiður frá Garðsá. Í öndverðu var þak klætt listasúð, en þakið var síðar klætt bárujárni. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgu píramítaþaki. Kirkjan er klædd listaþili, þak bárujárni, turnþak sléttu járni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og tveir á kórbaki. Í þeim er krosspóstur og rammar með sex rúðum. Sexrúðu gluggi, heldur minni, er ofarlega á framstafni. Lítill hringgluggi er á framstafni turns og ferstrend hljómop með hlera fyrir á hvorri hlið. Fyrir kirkjudyrum eru fjölspjalda vængjahurðir. Yfir þeim er stórstrikaður bjór og strikaðir faldar til hliða.
Altaristaflan er eftirmynd Arngríms Gíslasonar frá árinu 1871 eða 1872 af töflu sem áður var í Garðskirkju, en er nú á Þjóðminjasafni Íslands. Hún sýnir Krist með kaleik í hægri hendi og upplyfta blessandi vinstri hendi. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem munu vera íslenskir smíðisgripir frá 17. öld. Skírnarfonturinn er úr viði, teiknaður og smíðaður af Braga Eggertssyni húsgagnasmíðameistara frá Laxárdal í Þistilfirði með útskurði eftir Svein Ólafsson myndskera í Reykjavík. Hann var gefinn kirkjunni árið 1974. Klukkur Einarsstaðakirkju eru jafnstórar. Önnur er frá árinu 1776, hin er leturlaus, en kom í kirkjuna skömmu fyrir aldamótin 1900.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.

- Þorgrímur G. Daníelsson
- Sóknarprestur