
- Elína Hrund Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur
Keldnakirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1875. Hönnuðir voru Halldór Björnsson frá Felli og Kjartan Ólafsson, forsmiðir. Kirkjan er með ferstrendan turn með risþaki og stendur turninn á stalli. Á framhlið turns er hljómop með hlera og bjór yfir, en skjöldur, með ártalinu 1875, er á framhlið turnstalls. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír gluggar með miðpósti og þriggja rúðu römmum og bjór yfir. Einn gluggi, heldur minni, er yfir kirkjudyrunum og eru spjaldsettar vængjahurðir fyrir dyrunum og bjór yfir. Kirkjan var í upphafi klædd listaþili og rennisúð en var síðar klædd bárujárni í áföngum. Hún var skrautmáluð innan árið 1956 af Jóni og Grétu Björnsson.
Altaristaflan er eftir Ámunda Jónsson snikkara, gerð árið 1792 fyrir Guðmund Erlendsson og Guðrúnu Pálsdóttur húsbændur á Keldum. Hún var flutt í Háfskirkju árið 1841 og þaðan aftur í Keldnakirkju árið 1957. Miðtaflan sýnir síðustu kvöldmáltíðina, en á yfirbríkinni er mynd af krossfestingunni. Í kirkjunni er einnig altaristafla eftir Anton Dorph, máluð á striga árið 1876, og sýnir Krist hjá þeim systrum Mörtu og Maríu. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri. Kaleiksfóturinn mun vera frá 15. öld, en skálina smíðaði Halldór Þórðarson „gjörtlari“ árið 1839. Sama ár smíðaði hann einnig patínuna. Kirkjan á skírnarfat úr messing, sem fyrst er getið í vísitasíu árið 1747. Elsta kirkjuklukkan er frá árinu 1524, en hinar eru frá árunum 1583 og 1602.
