
- Bryndís Svavarsdóttir
- Sóknarprestur

Hagakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1892–1893. Hönnuður hennar er ókunnur en yfirsmiður kirkjunnar var Magnús vert Magnússon forsmiður í Flatey. Efni til smíði kirkjunnar kom tilsniðið til landsins frá Kaupmannahöfn.
Kirkjan fauk árið 1897 og var tekin niður til geymslu en loks endurreist árið 1899. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er lágur ferstrendur turn með pírmítaþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum múrhúðuðum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir krosspóstagluggar með römmum og sex rúðum. Á framstafni er gluggi með miðpósti og þriggja rúðu römmum og hljómop með hlera á framhlið turns.
Bjór er yfir gluggum, hljómopi og dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi og bjór yfir. Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1900 eftir danska listmálarann Anker Lund og sýnir Krist með lærisveinum sínum í Emmaus. Kirkjan á silfurkaleik og patínu í nýgotneskum stíl, sem eru enskir smíðisgripir, sem voru gefnir kirkjunni árið 2009. Prédikunarstóll Hagakirkju var gefinn kirkjunni árið 1745.
Skírnarfonturinn er úr harðviði og var smíðaður árið 2004 af Ólafi Sigurjónssyni í Forsæti í Villingaholtshreppi með útskurði eftir Sigríði Jónu Kristjánsdóttur listakonu á Grund. Kirkjuklukkur Hagakirkju eru tvær. Önnur er gömul kórbjalla, hin var gefin kirkjunni árið 1787.
