
- Kristján Arason
- Sóknarprestur
Stórólfshvolskirkja var reist árið 1930 og var Guðmundur Þórðarson frá Lambalæk í Fljótshlíð yfirsmiður. Kirkjan er úr timbri og járnvarin. Hún skiptist í forkirkju, kirkjuskip og kór. Að utan eru kirkjuveggir klæddir hvítri járnklæðningu og þakið dökkrautt bárujárnsþak. Ljósakross er á turni. Yfir kórinngangi er bogmyndaður rammi með áletrun: „Lof sé þér Drottinn, konungur eilífrar dýrðar.“ Á kirkjunni eru átta gluggar, fjórir á hvorri hlið, hver með átta rúðum og mynda gafl að ofan. Gluggakarmar eru gulir en faldarnir málaðir í gráu og skreyttir. Kirkjan tekur um 120 manns í sæti. Árið 1955 var kirkjan allmikið endurnýjuð. Þá var byggt við hana skrúðhús og sett í hana söngloft, einnig var kirkjan máluð og skreytt að innan af Grétu og Jóni Björnsson.
Prédikunarstóllinn er með áletrun á því sem snýr út í kirkju: „Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi. Grasið skrælnaði og blómið féll af en orð Drottins varir að eilífu. Péturs bréf 1.24“
Altaristaflan er eftir Þórarin B. Þorláksson og sýnir Jesú og börnin. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri og eru það gamlir gripir. Skírnarfontur úr eik var fluttur inn frá Englandi. Rafmagnsorgel var keypt árið 2000– tölvuhljóðfæri. Hljóðkerfi hefur verið sett upp í kirkjunni, og kapall lagður niður í Kirkjuhvol, dvalarheimili aldraðra, svo íbúar þar geti notið þess sem fram fer í kirkjunni.
