
- Brynhildur Óla Elínardóttir
- Sóknarprestur

Miklaholtskirkja var byggð á árunum 1945-1946 og vígð þann 28. júlí, árið 1946. Kirkjan er byggð úr steinsteypu og var skelhúðuð að utan. Þrír bogadregnir gluggar, með þremur rúðum eru á hliðum og einn lítill gluggi á vesturgafli. Kirkjan er nú álklædd að utan.
Altaristaflan er þrískipt mynd. Hana málaði Kurt Zier, skólastjóri Handíða-og myndlistaskólans í Reykjavík. Kirkjan á kaleik með loki og áletrun og patínu, sem einnig er með áletrun. Skírnarfontur var unninn í Glit h.f. Hann er með mynd úr brenndum hraunleir af skírn Jesú. Skálina gerði Ragnar Kjartansson og er hún úr fínkornóttum marmarasalla og hvítu steinlími. Klukkur í turni Miklaholtskirkju eru þrjár. Stærsta klukkan ber áletrunina: ,,Þorleifsklukka. 1960.” Minni klukkan var gerð árið 1944 af Járnsteypunni í Reykjavík. Lítil klukka án áletrunar gæti verið úr gömlu kirkjunni.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.
