
- María Guðrúnar. Ágústsdóttir
- Sóknarprestur

Stóra-Ásskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1897–1898. Hönnuður hennar var Jón Magnússon smiður og bóndi í Stóra-Ási. Kirkjan var flutt ofan af ásnum árið 1965 og sett á steinsteyptan sökkul. Á kirkjunni er krossreist þak. Ferstrendur stöpull nær upp að mæni kirkjunnar og á honum er flatt þak. Undir þakbrúnum stöpuls eru randskornar vindskeiðar en handrið með krosssettum rimum ofan á brúnum. Turninn er minni um sig, áttstrendur með íbjúgt áttstrent þak. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn á framhlið turns.
Fyrir kirkjudyrum er okahurð og þvergluggi yfir með krosssettum og lóðréttum rimum. Altaristaflan er olíumálverk eftir danska listmálarann Carl H. Bloch og sýnir Krist upprisinn framan við grafarmunnann, ásamt tveim krjúpandi englum. Í kirkjunni er einnig kvöldmáltíðarmynd máluð á tré. Myndin er dönsk og er frá 18. öld og mun hafa komið í Stóra-Ás sem umbúnaður altaristöflu Bloch. Myndin hangir yfir kirkjudyrum.
Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðuð af Jafet Einarssyni 1805-1872 silfursmið í Reykjavík. Skírnarfonturinn var höggvinn úr rauðum Húsafellssteini árið 1963 af Ársæli Magnússyni, steinsmið í Reykjavík. Þá á kirkjan skírnarfat úr tini, prýtt upphleyptu blómaskrauti í botni og ber ártalið 1726. Tvær kirkjuklukkur eru í Stóra-Áskirkju. Sú stærri er frá árinu 1726, hin án áletrunar.
