
- Gunnar Eiríkur Hauksson
- Prófastur Vesturlandsprófastdæmis

Narfeyrarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1889. Hönnuður hennar var Sveinn Jónsson, forsmiður frá Djúpadal og Jón Jósefsson í Straumi. Árið 1888 var byggð timburkirkja á Narfeyri, en hún hrundi gjörsamlega þann 23. desember sama ár. Ný kirkja var byggð árið eftir, en hún færðist til á grunni í óveðri árið 1897 og fauk ári síðar. Kirkjan var rifin og endurbyggð árið 1899. Yfirsmiður, við endurbyggingu kirkjunnar árið 1899, var Jón Jósefsson í Straumi. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er lágur turn með pýramídaþaki og undir honum bjúgstallur. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum, einn heldur minni á framstafni og lítill gluggi, með bjór yfir, á framhlið turns.
Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir og undir honum flatsúlur hvorum megin dyra. Altaristaflan er olíumálverk á tré frá 18. eða 17. öld og sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Taflan er í skrautlegri umgjörð og barokkstíl. Kirkjan á silfurkaleik, sem smíðaður var í Kaupmannahöfn. Á skálina er grafið nafn Guðmundar ríka Þorleifssonar á Narfeyri og ártalið 1692. Klukkur Narfeyrarkirkju eru frá 1691 og 1707.
