
- Jarþrúður Árnadóttir
- Prestur

Bakkagerðiskirkja er timburhús, hjúpað steinsteypu með steinsteypta forkirkju. Hún var byggð á árunum 1900-1901. Hönnuður var Jón Jónsson forsmiður á Seyðisfirði. Hún var friðuð 1. janúar 1990, samkvæmt aldursákvæði laga. Þök kirkjunnar eru krossreist og klædd bárujárni. Upp af framstafni er ferstrendur turn með íbjúgu pýramídaþaki. Turninn er klæddur sléttu járni en kirkjuveggir múrhúðaðir. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír bogadregnir tólfrúðu gluggar, lægri áttarúðu gluggi er á framstafni og á forkirkju hvorum megin dyra er mjór bogadreginn fjögurra rúðu krosspóstagluggi. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð.
Söngloft er yfir fremri hluta framkirkju og stigi við vesturgafl norðanmegin. Járnstag er í gegnum frambrún sönglofts og upp í gegnum hvelfingu. Gluggum var breytt, steypt utan á veggi kirkjunnar og forkirkja var byggð árið 1953. Altaristafla kirkjunnar er verk hins kunna listmálara Jóhannesar S. Kjarvals, sem ólst upp í Geitavík á Borgarfirði og sýnir hún Jesú Krist flytja fjallræðuna á Álfaborginni í Borgarfirði eystra, með Dyrfjöllin í baksýn og má sjá kunn andlit heimamanna þess tíma í áheyrendahópnum.
Altaristaflan, sem máluð var árið 1914, var gjöf kvenfélagsins á staðnum til kirkjunnar. Í kirkjunni eru altarisstjakar úr kopar frá 17. öld. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri, eftir Jón Sigfússon (1815-1882) silfursmið og eru þessir gripir líklega úr Desjamýrarkirkju. Þá á kirkjan þjónustukaleik og patínu úr silfri frá 19. öld. Prédikunastóllinn er úr Desjamýrarkirkju og gæti verið frá síðari hluta 18. aldar. Kirkjuklukka í turni var fengin að gjöf frá Vallaneskirkju, fljótlega eftir að kirkjan var byggð.


