Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Kotstrandarkirkjuvegi, 816 Ölfus
Bílastæði
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 120
Sókn
Kotstrandarsókn

Kotstrandarkirkja

Kotstrandarkirkja er friðlýst timburkirkja, byggð árið 1909. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Samúel Jónsson, forsmiður var yfirsmiður kirkjunnar, eftir frumteikningum að Hraungerðiskirkju eftir Eirík Gíslason, forsmið. Þakið er krossreist, laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrún og upp af vesturstafni er ferstrendur burstsettur turn með háa spíru. Undir honum er stallur. Hljómop með hlera og bogaglugga yfir, eru á þremur hliðum turnsins. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar bogadregnir að ofan. Á framstafni yfir kirkjudyrum eru þrír gluggar, miðglugginn samskonar og aðrir gluggar kirkjunnar, en hinir tveir heldur minni. Tveir litlir gluggar eru hvorum megin dyra og aðrir tveir á kórbaki. Í gluggum er miðpóstur og tveir mjórri þverpóstar hvorum megin hans og sex rúður; fjórar ferstrendar og tvær undir fjórðungsboga.

Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, þær innri spjaldsettar, og bogagluggi yfir. Altaristaflan er litprentuð eftirmynd á striga af málverki eftir prússneska málarann Johannes Heydeck frá 1878. Taflan var áður í Reykjakirkju, en kom í nýsmíðaða kirkjuna árið 1909. Kirkjan á silfurkaleik og patínu frá árinu 1864 og eru gripirnir eftir danska silfursmiðinn Wilhelm Christensen. Gripir þessir voru áður í Arnarbæliskirkju. Skírnarfonturinn er úr ljósu límtré, smíðaður árið 1988 af Sigurði Sólmundarsyni í Hveragerði. Tvær kirkjuklukkur eru í kirkjunni. Önnur er úr Arnarbæliskirkju og er frá árinu 1644. Hin er úr kirkjunni á Reykjum, slétt og leturlaus.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Salvar Geir Guðgeirsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Ninna Sif Svavarsdóttir
  • Sóknarprestur