Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Kirkjuteigi, 105 Reykjavík
Símanúmer
864-9412
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Fjöldi: 200
Sókn
Laugarnessókn

Laugarneskirkja

Laugarneskirkja er friðlýst kirkja, sem Guðjón Samúelsson, fyrrum húsameistara ríkisins, teiknaði. Hún var vígð þann 18. desember árið 1949. Laugarneskirkja er einstaklega stílhrein og falleg bygging og markar upphafið á lokaskeiði Guðjóns sem arkitekts. Undir áhrifum funkisstefnunnar sleppir hann öllu skrauti, þó segja megi að hamrastíls hans gæti enn, því stöllunin í turni kirkjunnar minnir á stuðlaberg. Turninn er 25 metra hár. Skrautmálun í lofti kirkjunnar gerði Gréta Björnsson listmálari, ásamt eiginmanni sínum Jóni Björnssyni árið 1956. Á árunum 1987-1989 var unnið að gagngerum endurbótum á kirkjunni að utan sem innan og var kirkjan tekin í notkun eftir endurbæturnar sunnudaginn 10. september árið 1989.

Orgelið smíðaði Björgvin Tómasson orgelsmiður. Það er 28 raddir og var vígt á aðventu árið 2002. Kirkjan á tvo flygla og er annar í kirkjunni, sá er af Boston gerð og hinn sem er af Hyundai gerð, er í safnaðarheimilinu. Auk þess er Euterpe píanó í gamla safnaðarheimilinu. Altari kirkjunnar er úr eik og er frá árinu 1989. Það er frístandandi og var teiknað hjá Húsameistara ríkisins af Andrési Narfa Andréssyni og smíðað á smíðastofu Eyjólfs Eðvaldssonar af Tómasi Bergþóri Þorbjörnssyni. Á kórvegg kirkjunnar er viðarkross.

Kirkjan á silfurkaleik, oblátubuðk, patínu, silfurkönnu og 150 sérbikara. Þá á kirkjan kaleik, sem gefinn var árið 1979. Skírnarfonturinn er úr eik og er frá árinu 1989. Hann var teiknaður hjá Húsameistara ríkisins af Andrési Narfa Andréssyni og smíðaður á smíðastofu Eyjólfs Eðvaldssonar af Tómasi Bergþóri Þorbjörnssyni. Þá á kirkjan skírnarfont úr marmara með látúnsskál. Hann var hannaður og handhöggvinn af Jóhanni Eyfells. Skálin var gerð af Leifi Kaldal, silfursmiði.

Þrjár kirkjuklukkur eru í turninum. Tvær klukknanna, ásamt hringingarbúnaði sem ekki er lengur í notkun, voru gefnar af kvenfélagi og bræðrafélagi Laugarnessóknar. Þriðja klukkan var keypt frá Hollandi árið 2005 en það ár voru hinar klukkurnar yfirfarnar og hreinsaðar ásamt því að skipt var um hringingarbúnað og stáluppistöður endurnýjaðar. Um framkvæmdina sá Ásgeir Long, en vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar hafði komið upp fyrri uppistöðum þegar fyrri klukkurnar tvær voru vígðar í desember 1958. Þá á kirkjan litla klukku úr Grímseyjarkirkju, sem var gjöf frá Einari Einarssyni, fyrrum djákna í Grímsey.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Ásta Ingibjörg Pétursdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Davíð Þór Jónsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Guðbjörg Jóhannesdóttir
  • Prófastur Reykjavíkurprófastdæmis vestra
Mynd sem tengist textanum
  • Sigurður Jónsson
  • Sóknarprestur