Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Brautarholtsvegi, Kjalarnesi, 162 Reykjavík
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 70
Sókn
Brautarholtssókn

Brautarholtskirkja

Brautarholtskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1857. Eyjólfur Þorvarðarson snikkari á Bakka var yfirsmiður hennar. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er lágur ferstrendur turn með íbjúgu píramídaþaki. Kirkjan er reist af bindingi, veggir eru timburklæddir og þak járnklætt. Kirkjan stendur á steinsteyptum múrhúðuðum sökkli.

Framundan kirkjudyrum eru steinhlaðnar tröppur með tveimur þrepum sem ganga fram og til sitt hvorrar handar með stafninum. Veggir kirkju og turns eru klæddir listaþili. Á hvorri hlið kirkju eru gluggar með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum. Að auki er á miðri suðurhlið lítill gluggi með tveggja rúðu ramma. Á gafli yfir kirkjudyrum er gluggi með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum. Fyrir kirkjudyrum er okahurð klædd tigulsettum stöfum að utan og smárúðóttur þvergluggi yfir þeim.

Altaristaflan er olíumálverk eftir Carl Rudolf Fiebig og sýnir Jesú í Getsemane. Hún kom í kirkjuna árið 1868. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem fyrst er getið árið 1858. Kaleikurinn er í gotneskum stíl. Prédikunarstóllinn er frá árinu 1664. Hann var yfirmálaður um aldamótin 1900, en hreinsaður fram árið 1989. Skírnarsárinn er úr mislitum ítölskum marmara, gerður á Ítalíu og gefinn kirkjunni árið 1958. Klukkur Brautarholtskirkju er tvær, önnur frá árinu 1740, hin er leturlaus.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Arna Grétarsdóttir
  • Sóknarprestur