
- Halla Rut Stefánsdóttir
- Sóknarprestur
Víðimýrarkirkja er friðlýst torf og timburkirkja, sem byggð var árið 1834. Hönnuður hennar var Jón Samsonarson forsmiður, alþingismaður og bóndi í Keldudal. Torfveggir eru við langhliðar kirkjunnar og torfþekja á krossreistu þaki. Kirkjustafnar eru klæddir tjargaðri reisifjöl. Tvöfaldar strikaðar vindskeiðar eru á þakbrúnum, krossfelldar og útskornar til enda og trékross upp af framstafni. Á kórbaki eru tveir póstagluggar hvorum megin altaris og í þeim tveir þriggja rúðu rammar, en fjögurra rúðu gluggi uppi á stafninum. Fjögurra rúðu gluggi er hvorum megin kirkjudyra og kvistur í suðurþekju með fjögurra rúðu glugga. Fyrir kirkjudyrum er okahurð.
Gegnt kirkju er klukknaport og á því lágreist listasúðað þak borið uppi af fjórum hornstoðum. Altaristaflan er vængjabrík í barokkstíl frá 17. öld. Fyrir miðju er kvöldmáltíðarmynd, krossfesting Krists á vinstri hönd og upprisan á þá hægri. Á utanverðum vængjum er málverk af Móse til vinstri og Jóhannesi skírara til hægri. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru af Birni Magnússyni gullsmið árið 1838 fyrir Hólskirkju í Bolungarvík. Prédikunarstóllinn er ekki yngri en frá árinu 1685. Hann er með fimm hliðum og máluðum myndum af Kristi og guðspjallamönnunum fjórum. Tvær klukkur hanga í klukknaporti, báðar frá árinu 1630.


