
- Sigurður Grétar Sigurðsson
- Sóknarprestur

Hvalsneskirkja er friðlýst steinhlaðin kirkja, byggð á árunum 1886-1887. Hönnuður hennar var Magnús Magnússon steinsmiður. Tréverk vann Magnús Ólafsson snikkari í Reykjavík. Árið 1945 voru veggir einangraðir að innan með vikurplötum, múrhúðaðir og gluggum breytt. Hönnuður breytingannna var Embætti Húsameistara ríkisins. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgt þak. Hann stendur á bjúgstalli. Þök og bjúgstallur eru klædd eir. Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnu steinlímdu grjóti með grófri áferð en tvær neðstu steinaraðir eru slétthöggnar. Sökkulbrún er neðarlega á vegg, steinbrúnir undir þakbrún og þakskeggi og raðsteinsbogar yfir gluggum og kirkjudyrum og yfir þeim steinn með ártalinu 1887. Turninn er smíðaður úr timbri og klæddur láréttri timburklæðningu. Á turnhliðum eru innfelldir bogafletir með bogadregnum hljómopum og hringglugga yfir en flatsúlur á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar með átta rúðum og tveir minni með sex rúðum á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bogagluggi yfir.
Altaristaflan er eftirmynd Sigurðar Guðmundssonar málara frá árinu 1867 af töflu G.T. Wegerens í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hún sýnir upprisuna. Í kirkjunni er lágmynd úr eir af sr. Hallgrími Péturssyni. Myndin er afsteypa af verki Einars Jónssonar myndhöggvara og kom í kirkjuna annað hvort árið 1953 eða 1954. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðað var í Kaupmannahöfn árið 1821. Auk þess á kirkjan silfurkaleik með stút, sem var gefinn kirkjunni árið 1962. Skírnarfonturinn er úr tré, smíðaður af Erlendi Guðmundssyni bónda á Stafnesi á árunum 1835-1837. Þá á kirkjan skírnarfat úr tini, sem smíðað var í Kaupmannahöfn árið 1824. Kirkjuklukkurnr eru frá árunum 1819 og 1875.
