
- María Guðrúnar. Ágústsdóttir
- Sóknarprestur

Húsafellskirkja eða kapella er með turni með krossi, vígð árið 1973. Kirkjan er hlaðin og var upphaflega máluð hvít, en síðar klædd með timbri að utan. Franskir gluggar með smárúðum eru á stafni kirkju, hliðarvæng og á hliðum báðum megin. Ásgrímur Jónsson listmálari átti hugmynd að útliti kapellunnar, en Halldór H. Jónsson gekk frá endanlegri teikningu. Kristján Kristjánsson var smiður ásamt heimafólki. Ólafur Jónsson á Kaðalsstöðum smíðaði innréttingar ásamt Guðmundi Magnússyni. Kirkjan rúmar um 60 manns. Altaristaflan eru tvær höggmyndir í stein eftir Pál Guðmundsson. Önnur sýnir krossfestinguna, hin sýnir upprisuna.
Altarisborð úr timbri er aftast í kapellunni og er hluti af innréttingum frá byggingartíma kapellunnar, en það vék fyrir nýju steinaltari sem Unnsteinn Elíasson byggði í samvinnu við Pál Guðmundsson. Allt grjót er frá Húsafelli. Listaverk er innfellt í altarisborðið. Það sýnir Krist brjóta brauðið í Emmaus. Á steinaltarinu standa tveir steinkertastjakar, mótaðir sem hendur sr. Snorra á Húsafelli. Þeir eru einnig verk Páls Guðmundssonar. Kirkjan á kaleik og patínu frá því um 1970, kaleikurinn er gylltur að innan, en silfurlitur að utan með rákum og fangamarki Krists (XP). Kirkjan á einnig steinkaleik. Höggmynd af upprisunni eftir Pál er til hliðar við altarið ásamt höggmynd af Jakobi Guðmundssyni, sem var hvatamaður að byggingu kapellunnar. Þessar tvær höggmyndir eru frá því um 1980. Skírnarfonturinn er úr steini, hönd sem heldur uppi hnetti með tilhogginni skál eftir Pál Guðmundsson.
Í Húsafellskapellu er ein kirkjuklukka og er henni handhringt. Í sáluhliði kirkjugarðsins við kapelluna er önnur klukka. Sú er eldri en ekki er vitað um uppruna hennar.
Ljósmynd tók Páll Guðmundsson.
