- María Guðrún Ljungberg
- Sóknarprestur

Hofskirkja í Vopnafirði
Hofskirkja er staðsett á Hofi í Vopnafirði og er timburhús, sem byggt var árið 1901. Kirkjan stendur í Hofskirkjugarði, fallegum garði þaðan sem er gott útsýni yfir Hofsárdalinn. Björgólfur Brynjólfsson, forsmiður frá Skjöldófsstöðum í Breiðdal, teiknaði kirkjuna.
Kirkjan var klædd bárujárni í upphafi en var klædd trapisumótuðum plötum árið 1980. Kirkjan var friðuð 1. janúar árið 1990. Talið er að fyrsta kirkjan hafi verið byggð á Hofi skömmu eftir kristnitöku. Altaristaflan er olíumálverk frá 1860 og sýnir Krist upprisinn við grafarmunnann.
Altarisstjakar úr koparblöndu eru frá fyrri hluta 19. Aldar. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri eftir Jesn Christian Thorning (1805-1863). Þá á kirkjan oblátuöskju úr silfri eftir Sören P. Engel 1807-1853, sem gefin var til minningar um Guttorm Þorsteinsson prófast á Hofi.
Skírnarfonturinn er úr bæsuðu birki eftir Halldór Sigurðsson (1923-1997) í Miðhúsum, gerður árið 1988. Skírnarvatnskanna úr tini er danskur smíðisgripur frá því um 1800. Kirkjuklukkur Hofskirkju eru frá 19. öld og byrju 20. aldar.
Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.