
- Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back
- Sóknarprestur

Álftártungukirkja er friðlýst kirkja, sem byggð var árið 1873. Hönnuður hennar var Guðni Jónsson forsmiður og bóndi í Valshamri. Í öndverðu voru veggir klæddir listaþili, þak listasúð og kirkjan var bikuð að utan. Árið 1907 var kirkjan öll klædd bárujárni og um svipað leyti var loft tekið úr innri hluta framkirkju og hvelfing lengd úr kór inn yfir hana að fremsta stafgólfi. Árið 1957 voru settir sexrúðu gluggar með þverpóstum í suðurhlið og síðar á framstafn og norðurhlið. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er lágur turn með íbjúgum hliðum og risþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir krosspóstagluggar og einn á framstafni yfir kirkjudyrum. Í þeim eru rammar og sex rúður. Lítill fjögurra rúðu krosspóstsgluggi er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar hurðir. Að utan eru vængjahurðir en spjaldsett hurð að innan.
Altaristaflan er olíumálverk eftir Ásgeir Bjarnþórsson listmálara frá árinu 1843 og sýnir Jesú blessa börnin. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru í London 1527-1528 eða 1528-1529. Tvær klukkur eru í Álftártungukirkju. Sú stærri er frá árinu 1722, hin er með gotnesku lagi og án áletrunar.
