- Sólveig Halla Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur

Neskirkja í Aðaldal
Neskirkja í Aðaldal er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1903. Hönnuður hennar var Eiríkur Þorbergsson forsmiður. Kirkjan var lengd til vesturs um eitt gluggafag og kór var smíðaður árin 1976–1977. Hönnuður breytinganna var Bjarni Ólafsson trésmíðameistari. Jón og Gréta Björnsson skrautmáluðu kirkjuna að innan árið 1977. Bárujárnsklætt risþak er á kirkju og kór, en krossreist þak á klukknaporti.
Kirkjan er klædd láréttri panelklæðningu og hornborðum með súluhöfðum en hæðarskilsband er umhverfis hana skreytt tannstöfum. Hún stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar með tólf rúðum og tveir á hvorum stafni. Hvorum megin á kór er mjór gluggi með þremur rúðum. Um gluggana eru ferstrend umgjörð með földum í klassískum stíl. Súlur eru undir framhornum klukknaports.
Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir. Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1928 eftir Eyjólf Eyfells listmálara og sýnir Jesú blessa börnin. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru gamlir gripir, líklega gerðir í Hamborg. Gripirnir komu úr Áskirkju í Kelduhverfi, sem lögð var niður árið 1816. Skírnarfonturinn er úr ljósum viði, teiknaður og útskorinn af Kristjáni og Hannesi Vigfússonum frá Litla Árskógi árið 1980. Klukkur Neskirkju eru á ramböldum í klukknaportinu. Þær eru báðar leturlausar, en þeirra er getið í vísitasíum frá 18. öld.

- Þorgrímur G. Daníelsson
- Sóknarprestur