
- Jarþrúður Árnadóttir
- Prestur

Hjaltastaðakirkja er timburhús, með forkirkju undir minna formi. Kirkjan var byggð árið 1881. Hönnuður hennar var Finnbogi Sigmundsson forsmiður, en Þorgrímur Jónsson, forsmiður frá Gilsá, hefur einnig verið talinn hönnuður kirkjunnar. Kirkjan var friðuð 1. janúar árið 1990. Þök eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er krosspóstur og sex rúður í römmum. Fjögurra rúðu póstgluggi er á framstafni forkirkju uppi yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Uppi yfir dyrum er bjór og undir honum, sitt hvorum megin dyra, flatsúla með súluhöfuð. Fram undan dyrum eru trétröppur með sex þrepum.
Altaristaflan er olíumálverk frá síðari hluta 19. aldar, eftir Andreu Taftrup, sem fædd er um 1825. Hún sýnir Jesú á bæn í garðinum Getsemane. Prédikunarstóll er innan miðglugga sunnan megin og kórþil með renndum pílárum milli stóls og veggjar. Skírnarsáinn smíðuðu Halldór Sigurðsson og Hlynur Halldórsson, Miðhúsum. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri, sem gætu verið frá 18. öld. Kaleikurinn var keyptur frá Hofskirkju í Vopnafirði árið 1858. Einnig á kirkjan þjónustukaleik úr silfri sem var til í kirkjunni árið 1748. Huslker úr gylltum málmi var gefið kirkjunni á aldarafmæli hennar árið 1984. Klukkur Hjaltastaðakirkju eru því sem næst jafnstórar og voru nýjar árið 1850. Þær voru fluttar á ísum að vetrarlagi frá Vopnafirði.


