
- Baldur Rafn Sigurðsson
- Sóknarprestur

Njarðvíkurkirkja er friðlýst steinhlaðin kirkja, sem byggð var á árunum 1885-1886. Hönnuður hennar var Magnús Magnússon steinsmiður. Kirkjan var lögð niður sem sóknarkirkja árið 1917, en var endurvígð árið 1944. Turni var breytt það ár og ýmsu öðru í ytri og innri gerð. Embætti Húsameistara ríkisins hannaði breytingarnar. Kirkjan var færð í upprunalegt horf að utan árin 1981-1986 og að innan árin 1989-1990. Hún er með lágreist skífuklætt mænisþak.
Upp af vesturstafni er ferstrendur turn með mænisþaki, en undir honum er lágur stallur. Turninn er allur klæddur bárujárni. Kirkjan er hlaðin úr steinlímdu tilhöggnu grjóti og stendur á lágum sökkli. Tvær neðstu steinaraðirnar eru slétthöggnar, en gróf áferð á steinum þar fyrir ofan. Sökkulbrún er neðarlega á vegg, steinbrún undir þakskeggi og raðsteinsbogar yfir gluggum og dyrum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir smárúðóttir gluggar með skásettum rimum, einn minni á vesturstafni og loks er lítill gluggi sömu gerðar á framstafni turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bogagluggi yfir.
Altaristaflan er olíumálverk eftir Magnús Á. Árnason listmálara frá árinu 1944 og sýnir konur við kross Krists. Á undirtöflu er áritað: „Ég lifi og þér munuð lifa“. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðuð af Ásbirni Jacobsen gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn árið 1863. Skírnarfonturinn er úr tré með loki og var hann upphaflega í timburkirkjunni sem smíðuð var árið 1858. Í honum er skírnarskál úr brenndum leir, sem Guðmundur frá Miðdal gerði árið 1954. Þrjár kirkjuklukkur eru í Njarðvíkurkirkju, sú elsta frá árinu 1725, önnur frá árinu 1840 og sú yngsta frá árinu 1940.


