Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Hvammsvegi, 311 Borgarnesi
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 80
Sókn
Hvammssókn

Hvammskirkja í Norðurárdal

Hvammskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1880. Hönnuður hennar var Björn Þorláksson forsmiður og bóndi í Munaðarnesi og síðar á Álafossi. Í öndverðu var þakið timburklætt og veggir klæddir vatnsklæðningu og kirkjan stóð á steinhlöðnum sökkli. Árið 1900 var kirkjan öll bárujárnsklædd nema kórbakið. Á árunum 1969–1970 var steyptur sökkull undir kirkjuna, veggir voru klæddir vatnsklæðningu, nýir gluggar með tvöföldu gleri voru settir í hana og turninn var endursmíðaður frá grunni. Hönnuður breytinganna var Hörður Ágústsson listmálari. Turn kirkjunnar var endurbyggður árið 2009 og tekur mið af turni kirkjunnar á fyrri hluta 20. aldar. Hönnuður þess var Hrafnhildur Sverrisdóttir arkitekt.

Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn og á honum sveigt toppþak. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu, þök bárujárni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstgluggar með þriggja rúðu römmum, minni gluggi er á framstafni og hringgluggi á turni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, þær innri spjaldsettar. Altaristaflan er olíumálverk og sýnir gönguna til Emmaus. Myndin er ómerkt, en er talin vera eftir danska listamanninn Anker Lund. Myndin var keypt til kirkjunnar skömmu fyrir aldamótin 1900. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðuð árið 1826 af Eggerti Guðmundssyni bónda og gullsmið í Sólheimatungu. Skírnarfonturinn var útskorinn af Ríkarði Jónssyni myndskera árið 1970. Kirkjuklukka Hvammskirkju er frá árinu 1791.

Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Anna Eiríksdóttir
  • Prestur