
- Snævar Jón Andrésson
- Sóknarprestur
Dagverðarneskirkja er friðlýst timburkirkja sem fyrst var byggð árið 1848. Kirkjan sem nú stendur er bárujárnsklædd og var byggð árið 1934 upp úr viðum fyrri kirkju af Stefáni Björnssyni snikkara. Kirkjan er öll í einu formi, forkirkja, framkirkja og kór með krossreist þak. Allur frágangur kirkjunar að utan er með einfaldasta móti. Bárujárn er neglt á gluggakarmana, kverkborð og vindskeiðar eru án strika og sökklar og steinsteyptar kirkjutröppur eru án múrhúðunar. Eldri altaristaflan er kvöldmáltíðarmynd, máluð á tré. Fyrir ofan myndina er krossfestingarmynd.
Taflan kom í kirkjuna árið 1706. Yngri altaristaflan er vængjatafla, sem einnig sýnir kvöldmáltíðina. Innan á vængjum eru málaðar myndir af guðspjallamönnunum Lúkasi og Jóhannesi. Taflan er dönsk og var gefin kirkjunni árið 1762. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem líklegast eru danskir gripir. Tvær kirkjuklukkur eru í Dagverðarneskirkju og eru þær báðar leturlausar.
