
- Aðalsteinn Þorvaldsson
- Prestur
Akureyrarkirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem byggð var á árunum 1938-1940. Hönnuður hennar var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins. Safnaðarheimili var byggt við kirkjuna árin 1987-1990 sunnan við kirkjuna og að hluta neðanjarðar. Hönnuðir safnaðarheimilisins voru Fanney Hauksdóttir og Haukur Haraldsson arkitektar. Kirkjan er langkirkja og snýr framstafn í norðaustur.
Þök kirkju og kórs eru krossreist, en turnarnir mjókka upp á við í flötum stöllum. Bakveggur kórsins er bogadreginn. Kirkjan er steinuð með innfluttum mulningi. Þak kirkju og kórs eru úr timbri. Á milli turnanna er veggflötur, sem tengir þá saman. Á honum miðjum eru aðaldyr kirkjunnar með tvöfaldri vængjahurð. Tveggja metra hár ljósakross þakinn silfurbergi hangir milli kórs og kirkjuskips. Guðjón Samúelsson átti hugmyndina að krossinum.
Á kirkjuskipinu eru tólf járngluggar, sex á hvorri langhlið. Í þeim eru glermyndarúður, sem settar voru í kirkjuna á árunum 1969-1973 og sýna atvik úr sögu frelsarans, en neðsti hluti glugganna sýnir atvik úr kirkjusögu Íslands.
Kristinn G. Jóhannsson listmálari teiknaði átta af myndunum. Hinar myndirnar gerði James Crombie, enskur listamaður. Lágmyndir eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara eru framan á handriði setulofts. Myndirnar sýna atvik úr ævi Jesú. Steindur gluggi úr dómkirkjunni í Coventry á Englandi er fyrir miðju ofan við altarið. Hann er frá árinu 1853, var gefinn Akureyrarkirkju árið 1943 og sýnir Jesúbarnið borið í helgidóminn í fangi Símeons. Fjórir aðrir gluggar komu í kórinn árið 1960. Þeir eru gerðir eftir teikningum Guðmundar Einarssonar frá Miðdal. Altaristafla úr Akureyrarkirkju hinni eldri hangir á veggnum fyrir ofan skírnarfontinn.
Hún er krossfestingarmynd eftir danska málarann Edvard Lehmann, máluð árið 1867. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir gripir frá því um aldamótin 1900. Skírnarfonturinn er skírnarengill, sem er eftirgerð af skírnarfonti Bertils Thorvaldsen, gerð af Corrado Vigni. Hann var gefinn kirkjunni árið 1952. Orgel Akureyrarkirkju er 49 radda pípuorgel, smíðað árið 1961 í Þýskalandi. Kirkjuklukka frá árinu 1729 er í Akureyrarkirkju. Önnur klukka úr kopar er frá árinu 1875.


