
- Kristján Arason
- Sóknarprestur

Akureyjarkirkja er friðlýst timburkirkja, og var byggð árið 1912. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Á kirkju og skrúðhúsi eru krossreist þök en á turni hátt píramítaþak sem gengur út undan sér neðst. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar. Í þeim eru tveir krosspóstar og níu rúður glerjaðar í pósta og fíngerða þverpósta. Á vesturstafni eru tveir minni gluggar með krosspóst og sex rúður og einn á hvorri hlið skrúðhúss. Band er ofarlega umhverfis turninn og yfir því er hann klæddur sléttu járni og földum um þrjú fölsk hljómop og er yfirfaldur bogadreginn á neðri brún. Hljómop með hlera er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjarhurðir með lóðréttum spjöldum og bogaglugga yfir.
Þil var gert milli skrúðhúss og altaris á fimmta áratugnum en áður voru tjöld fyrir skrúðhúsinu. Altaristaflan er eftirmynd eftir töflu Carls Bloch í kirkjunni í Holbæk á Sjálandi og sýnir Krist blessa lítið barn. Taflan var keypt til Sigluvíkurkirkju árið 1879, en kom í Akureyjarkirkju árið 1912. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri eftir Magnús Eyjólfsson silfursmið í Vestmannaeyjum, keypt til Sigluvíkurkirkju árið 1860, en kom í Akureyjarkirkju árið 1912. Kirkjuklukka frá 1652 er ekki lengur nothæf, en hún kom úr Sigluvíkurkirkju. Klukkur Akureyjarkirkju eru frá 1686 og 1974.
