
- Anna Eiríksdóttir
- Prestur

Stafholtskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1875–1877. Talið er að Magnús Árnason, forsmiður, hafi gert uppdrætti að kirkjunni, hugsanlega í samvinnu við Halldór Bjarnason, forsmið, en þeir unnu báðir að smíði kirkjunnar. Í öndverðu var forkirkja við vesturstafn, þakturn á bjúgstalli upp af stafninum, veggir klæddir listaþili en listasúð á þaki og átta rúðu hornsneiddir krosspóstagluggar í hliðarveggjum. Kirkjan var tjörguð og stóð á steinhlöðnum sökkli. Á árunum 1888–1890 var bárujárn lagt á þök og hluta forkirkju, en turninn klæddur sinki. Árið 1903 voru veggir kirkju og turns klæddir bárujárni. Árið 1948 voru þakturn og forkirkja rifin en í þeirra stað smíðaður turn við vesturstafn, sökklar steinsteyptir og oddbogagluggar settir í kirkjuna. Hönnuður breytinganna var Kristján F. Björnsson byggingameistari á Steinum. Þak kirkjunnar er krossreist, en gaflsneitt yfir kór. Á stöpli er sveigt þak upp að ferstrendum turni með hátt píramítaþak sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Þrír átta rúðu hornsneiddir krosspóstagluggar eru á hvorri hlið kirkju og einn á hvorri hornsneiðingu kórs. Einn smárúðóttur oddbogagluggi er á framstafni stöpuls yfir dyrum og þrír á turnhliðum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Altaristaflan er olíumálverk eftir Einar Jónsson myndhöggvara og sýnir Krist með útbreiddan faðm í himingeimnum, skýlandi mannveru, táknmynd hins þreytta lífs. Undir myndinni er letrað: Komið til mín. Myndin var gefin til kirkjunnar árið 1950.
Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru árið 1748 af Sigurði Þorsteinssyni gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn. Skírnarfonturinn er úr beyki, útskorinn af Ágústi Sigurmundssyni myndskera laust upp úr miðri 20. öld. Skírnarfatið er úr látúni. Í botni fatsins er mynd af Georg og drekanum. Tvær klukkur eru í kirkjunni, önnur frá árinu 1739, hin er án áletrunar.
