
- Óskar Hafsteinn Óskarsson
- Prófastur Suðurprófastdæmis

Stóra Núpskirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1909. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson, húsameistari. Þakið er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur turn með turnspíru. Hann stendur á áttstrendum stalli. Bogadregin hljómop með hlera eru á hverri turnhlið. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm gluggar og þrír á hvorum stafni, bogadregnir að ofan. Í þeim eru fíngerðir póstar og rimar um tíu rúður.
Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir, bogadregnar að ofan. Altaristaflan er eftir Ásgrím Jónsson og sýnir fjallræðuna. Hún var máluð árið 1912. Gömul altaristafla var gefin kirkjunni árið 1728 og sýnir miðtaflan kvöldmáltíðina, en hliðarvængir sýna skírn Jesú og krossfestinguna. Gömul altaristafla úr Steinholtskirkju er varðveitt í kirkjunni. Hún sýnir Jesú gangandi á vatninu taka í hönd Péturs. Kirkjan á silfurkaleik og patínu frá miðri 19. öld. Skírnarfonturinn er úr leir, gerður af Steinunni Marteinsdóttur árið 1979. Nýtt orgel kom í kirkjuna árið 1990, smíðað af Björgvin Tómassyni. Kirkjuklukkurnar eru tvær, leturlausar, en ekki gamlar.
Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.
