
- Gunnar Jóhannsson
- Prestur

Villingaholtskirkja er friðlýst timburkirkja, frá árinu 1911. Hönnuður hennar var Jón Gestsson, forsmiður og bóndi í Villingaholti. Þakið er krossreist og laufskornar vindskeiðar úr blikki eru undir þakbrúnum. Upp af framstafni er ferstrendur turn með íbjúga turnspíru.
Undir honum er turnstallur með innsveigðu þaki. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Veggir og þak eru klædd bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og tveir, heldur minni, yfir dyrum. Í þeim er T-laga póstur og tveggja rúðu rammi hvorum megin miðpósts en þverrammi með bogarimum yfir þverpósti.
Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir með þverglugga yfir. Altaristaflan er litprentuð eftirmynd á striga, af málverki eftir prússneska málarann Johannes Heydeck, frá árinu 1878. Myndir sýnir Krist tala um Jóhannes skírara, sem hefur verið hnepptur í fangelsi. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurpletti og voru gripirnir gefnir kirkjunni í byrjun 20. aldar. Tvær kirkjuklukkur eru í turninum. Önnur er með áletrun og fangamerki sr. Jóns Gíslasonar, sem þjónaði kirkjunni á árunum 1707-1750.
Ljósmynd tók Jóna Þórunn Ragnarsdóttir.


