- Fjölnir Ásbjörnsson
- Prestur

Staðarkirkja í Aðalvík
Staðarkirkja í Aðalvík er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1904. Hönnuður hennar var Helgi Elíasson smiður. Í öndverðu var kirkjan klædd lóðréttum plægðum borðum að utan og prédikunarstóll var fyrir ofan altari. Kór reistur við kirkjuna um 1930, veggir klæddir bárujárni og prédikunarstóll færður í suðausturhorn framkirkju. Hönnuður breytinganna er ókunnur.
Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er krosspóstur og þrjár rúður í hvorum ramma neðan þverpósts, en fjórar þríhyrndar rúður milli skásettra rima í tveimur römmum að ofan. Hvorum megin á kór er oddbogagluggi með T-laga pósti og þremur rúðum. Tveir póstgluggar með þriggja rúðu römmum eru á framstafni kirkju og einn á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.
Altaristafla Staðarkirkju er olíumálverk á tré, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Hún var gerð í Danmörku og gefin kirkjunni árið 1695. Hún er nú varðveitt á Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði. Kirkjan á kaleik og patínu úr nýsilfri, sem eru danskir smíðisgripir frá árinu 1883. Skírnarfat úr messing er líklega þýskt og er frá 16. öld. Klukka Staðarkirkju er leturlaus. Aðra klukku á kirkjan með ártalinu 1691, sem nú er í minnisvarða á grunni kirkjunnar á Hesteyri.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

- Hildur Inga Rúnarsdóttir
- Prestur

- Magnús Erlingsson
- Prófastur Vestfjarðaprófastdæmis