Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Fagurhóli, 350 Grundarfirði
Símanúmer
438 6649
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Fjöldi: 174
Sókn
Setbergssókn

Grundarfjarðarkirkja

Grundarfjarðarkirkja var byggð árunum 1960-1966. Hún var vígð árið 1966. Allir útveggir Grundafjarðarkirkju eru járnbentir með tvöfaldri grind milli glugga. Turnspíran var smíðuð úr stálbitum og var henni lokið árið 1978. Þak kirkjunnar er klætt járni en turnspíran eirplötum. Útveggir kirkjunnar voru húðaðir með beinhvítu kvarsi, en eru nú málaðir. Tvöfalt fölgult gler er í gluggum kirkjuskips, fordyris og útbyggingar orgels. Gluggar í kór eru með steindum gluggum. Þeir voru málaðir af Finni Jónssyni listmálara. Annar sýnir Þorlák biskup helga og hinn heilaga kvöldmáltíð. Þrískiptur gluggi er á vesturgaflinum, lagður steindu gleri, málaður af Eiríki Smith og smíðaður á þýsku glerverkstæði Oidtman-bræðra árið 1984. Hann ber yfirskriftina „Leyfið börnunum að koma til mín“.

Arkitektar lokaáfanga kirkjunnar voru Árni og Sigbjörn Kjartanssynir. Málningu og skreytingu í báðum áföngum byggingarinnar annaðist Greta Björnsson listmálari og Jón Björnsson, málarameistari í Reykjavík, með henni í fyrri áfanga. Altaristaflan var máluð af Halldóri Péturssyni. Hún sýnir Jesú ganga á vatninu og Pétur tekur að sökkva. Hún er frá árinu 1966.

Þrettán radda pípuorgel kom í kirkjuna árið 1986. Það er frá Reinhart Tzschöcke Orgelbaumeister. Kirkjan á kaleik með patínu og oblátuöskju. Auk þess á kirkjan kaleik og patínu úr brenndum leir frá Kristnihátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Skírnarfonturinn er úr tré með messingskreytingum og ígreyptri stálskál. Kirkjuklukkur Grundarfjarðarkirkju eru þrjár talsins og komu frá Spáni.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Karen Hjartardóttir
  • Prestur