- Erla Björk Jónsdóttir
- Prestur

Stærri-Árskógskirkja
Guðjón Samúelsson arkitekt og húsameistari ríkisins samþykkti teikningar, en þær gerði Halldór Kr. Halldórsson arkitekt frá Garðsvík á Svalbarðsströnd. Smiðir voru Vigfús Kristjánsson frá Litla-Árskógi og Jón Jónsson frá Vallholti. Kirkjan er steypt og turninn að hluta, söngloft og hvelfing úr timbri, þakið klætt pappa og bárujárni, hún rúmar 126 í sæti niðri og 20-30 á sönglofti. Í fyrstu var kirkjan máluð af Freymóði Jóhannssyni listmálara og tónskáldi frá Stærra-Árskógi. Kirkjan er hvítmáluð með rauðu þaki. Á hvorri hlið kirkjunnar eru fjórir smárúðóttir oddbogagluggar. Hringlaga gluggar eru á hliðum turns. Ofan við bogadregnar kirkjudyr eru þrír oddbogagluggar.
Altaristaflan er frá árinu 1878, máluð af Arngrími Gíslasyni málara. Hún sýnir upprisuna. Fyrirmyndin er talin vera málverkið sem Arngrímur bjargaði úr brunanum á Möðruvöllum árið 1866, eftir hollenska málarann Charles Adreé Vanloo 1705-1765. Guðmundur bildhöggvari skar út og gerði ramma utan um altaristöfluna.
Kirkjan á kaleik og bikara, sem gefnir voru kirkjunni árið 1966. Kirkjan á skírnarfont, útskorinn og smíðaðan árið 1935 af Guðmundi Frímann skáldi á Akureyri, en skírnarskálin er frá árinu 1761. Þá er í kirkjunni skírnafontur, sem gefinn var árið 1979. Hann var teiknaður og útskorinn af Kristjáni og Hannesi Vigfússonum frá Litla-Árskógi. Smíði annaðist Valdimar Jóhannsson á Akureyri, skírnarskálin var unnin af Björgvin Svavarssyni í Kópavogi. Tvær koparkirkjuklukkur eru í Stærra Árskógskirkju. Önnur mun vera frá árinu 1812, hin er frá árinu 1734.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.

- Oddur Bjarni Þorkelsson
- Sóknarprestur