
- Gunnar Jóhannsson
- Prestur

Hraungerðiskirkja er friðlýst timburkirkja, byggð árið 1902. Hönnuður hennar var Eiríkur Gíslason, forsmiður. Þakið er krossreist og laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrúnum kirkju og turns. Upp af vesturstafni er ferstrendur burstsettur turn með háa pýramídalaga spíru. Undir honum er breiður stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir krosspóstagluggar, bogadregnir að ofan með römmum með sex rúðum. Yfir kirkjudyrum á framstafni eru þrír gluggar, miðglugginn samskonar og aðrir gluggar kirkjunnar en hinir tveir heldur minni.
Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir. Altarisbrík kirkjunnar var útskorin og máluð árið 1938, eftir gamalli brík sem var áður í kirkjunni. Kirkjan á kaleik og patínu úr ensku silfri, gjöf sr. Sigurðar Pálssonar og Stefaníu Gissurardóttur. Skírnarfonturinn er úr tré, smíðaður af Bjarna Kjartanssyni árið 1952. Skírnarskálin er úr íslenskum leir eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Tvær koparklukkur eru í turninum, önnur leturlaus, hin frá árinu 1720.
Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.


